Andrés Skúlason

Verkefnastjóri, í 2. sæti.

Það er mikilvægt að innan hverrar stjórnmálahreyfingar sem og á Alþingi eigi sæti einstaklingar sem endurspegla ákveðin þverskurð af þjóðinni,  einstaklingar með ólíka reynslu og bakgrunn.

Ég bý yfir umtalsverðri reynslu af sveitarstjórnarsviðinu – sat í sveitarstjórn Djúpavogshrepps í samfellt 16 ár (2002 – 2018) og langmestan tíma sem oddviti.  Ég hef auk þess gegnt fjölmörgum öðrum ábyrgðarstörfum í stjórnum og nefndum á síðustu 20 árum á svæðis- og landsvísu.  

Ég hef komið ýmsu í verk meðfram störfum á sveitarstjórnarsviðinu, m.a. unnið að metnaðarfullum verkefnum í náttúru- og minjavernd. Sömuleiðis hef ég tekið virkan þátt í að styðja við skapandi greinar.  Þá hef ég mikla reynslu af samgöngu- og skipulagsmálum og þar hef ég einnig komið að fjölbreyttum og stórum verkefnum.  

Í störfum fyrir VG hef ég verið virkur t.d. gegnt formennsku í svæðisfélagi VG á Austurlandi, setið í stjórn kjördæmisráðs og er í flokksráði og stjórn VG.  

Samantekið hefur þessi reynsla veitt mér býsna haldgóða sýn á mörg mál sem snerta samfélag okkar og helstu áskoranir í landi sem er síkvikt og breytilegt.     

Markmiðin og grunngildin í stefnu VG eru skýr í mínum huga þar sem úrlausnarefnin í stóru myndinni miða að því hvernig við getum fært umhverfi og samfélag okkar til betri vegar með áherslu á umhverfismál, jöfnuð, kvenfrelsi og félagslegt réttlæti að leiðarljósi.  

Ég vil snúa vörn í sókn með fjölbreyttum aðgerðum með innbyggðum hvötum.  Sérstaka áherslu þarf að leggja á fjölbreytni atvinnulífs í sátt við umhverfi og samfélag og taka auðlindamálin föstum tökum. Þá legg ég mikla áherslu á heilbrigðismál, tómstunda- og íþróttamál, samgöngumál, náttúru- og minjavernd ásamt skapandi greinum, fjölbreytni í menntun og kraftmikilli nýsköpun með grænum lausnum.

Á grunni þessara meginstrauma getum við skapað núverandi og komandi kynslóðum bjarta framtíð.

Facebook : @andresskulason

Instagram : andresskulason

Aðrir frambjóðendur