Brynhildur Björnsdóttir

Blaðamaður, bókarýnir og söngkona, í 4. sæti.

Ég heiti Brynhildur Björnsdóttir, 51 árs úr Hlíðahverfinu, blaðamaður, bókarýnir og söngkona, tveggja dætra móðir og kattaeigandi.  Ég gef kost á mér vegna þess að ég hef áhuga á því að breyta heiminum til hins betra og ég hef trú á því að það sé hægt.

Með þá hugmynd í farteskinu hef ég til dæmis unnið að fjölmiðlun fyrir börn og unglinga með útvarpsþættinum Leynifélagið á RÚV sem ég stýrði í sjö ár. Ég var einnig meðhöfundur og í framkvæmdastjórn fræðsluátaksins “Fáðu já” og meðhöfundur, framleiðandi og leikstjóri stuttmynda- og fræðsluverkefnanna “Stattu með þér” og “Myndin af mér” sem öll fræða börn og unglinga um kynferðisofbeldi. Ég hef starfað á Fréttablaðinu og RÚV að blaðamennsku og dagskrárgerð og hef því innsýn inn í heim fjölmiðla og mikilvægi þeirra fyrir samfélagið.

Ég hef brennandi áhuga á menningar- og menntamálum og vil að kynfræðsla, fjármálalæsi, siðfræði, listsköpun og gagnrýnin hugsun fái aukið vægi í menntakerfinu. Þá hef ég einnig mikla trú á því að menning og listir geti breytt skoðunum og viðhorfum og finnst því mikilvægt að styrkja menningarvettvanginn, bæði í menntakerfinu og í almenna rýminu.

Ég er feministi og brenn fyrir baráttunni gegn kynferðisofbeldi og fyrir jafnrétti. Ég hef einnig mikinn áhuga á því að rétta hlut hefðbundinna kvennastarfa á vinnumarkaði, til dæmis með því að fá tilfinningaálag og ástarkraft metið til launa til jafns við annað álag. Þá þarf að valdefla karlmenn inn á kvenlæga starfsvettvanga.

Íslenskt samfélag er í grunninn harla gott og á góðri vegferð. Mikilvægt er að halda áfram að standa vörð um velferðarkerfin og verja þau ágangi markaðsafla. Þá þarf einnig að bæta ýmis grundvallaratriði. Það er til dæmis fáránlegt að börn alist upp við fátækt á Íslandi. Það þarf ekki og á ekki að vera þannig.  

Ég finn að tíminn er kominn að standa við hugsjónir mínar og beita mér fyrir því sem mér finnst rétt og satt og mikilvægt og það tel ég best að gera innan vébanda VG. Mér þætti því vænt um ef þið veittuð mér það traust að velja mig í fjórða sæti. 

Aðrir frambjóðendur