Elva Hrönn Hjartardóttir

Sérfræðingur hjá VR, 2 sæti.

Í velferðarríki eins og Íslandi á ekkert okkar að þurfa að líða skort af neinu tagi og gildir einu hver við erum, hvaðan- eða úr hvaða aðstæðum við komum. Ég legg áherslu á jafnrétti (til heilsu, menntunar, atvinnutækifæra, kynjajafnrétti og svo framvegis), jöfnuð, náttúruna, réttlát umskipti í loftslagsmálum, málefni útlendinga og annarra jaðarsettra hópa, vinnumarkaðinn og húsnæðismál.

Ég er 37 ára stjórnmálafræðingur, fædd og uppalin á Akureyri en flutti þaðan þegar ég var tvítug og bjó erlendis í fjögur ár, annars vegar í Danmörku og hins vegar í Bandaríkjunum. Ég flutti til Reykjavíkur árið 2009 og hér hef ég bæði starfað og stundað nám. Ég er í sambúð með Andra Reyr Haraldssyni og saman eigum við tvö börn sem eru fædd og uppalin hér í Reykjavík.

Ég gekk til liðs við VG snemma árs 2017 og hef tekið virkan þátt í starfi hreyfingarinnar síðan. Ég er varaformaður VG í Reykjavík, sit í stjórn VG og er annar hópstjóra í málefnahóp um loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni.

Árið 2018-2019 gegndi ég embætti alþjóðafulltrúa Ungra vinstri grænna (UVG) og sat í framkvæmdastjórn ungmennaráðs Norðurlandaráðs (UNR) 2018-2019 sem fulltrúi Socialistisk Ungdom i Norden. Árið 2019-2020 sat ég í sérstökum vinnuhópi á vegum Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar og UNR um líffræðilega fjölbreytni og sótti á þeim vettvangi meðal annars opinn fund Sameinuðu þjóðanna og loftslagsráðstefnu árið 2019. Þetta var mikil reynsla sem nýtist mér svo sannarlega í dag.

Ég hef víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og árin 2013-2015 var ég virk í verkalýðshreyfingunni bæði sem trúnaðarmaður á vinnustað og fulltrúi í trúnaðarráði. Í dag vinn ég hjá VR sem sérfræðingur á þróunarsviði, og hjá Landssambandi íslenzkra verzlunarmanna. Ég hef því þó nokkra reynslu og þekkingu bæði af stjórnmálum og verkalýðsmálum.

Á kjörtímabilinu sem nú er senn á enda hefur margt gott og þarft áunnist. Það verður þó alltaf nóg af verkefnum því það fylgir samfélagi í stöðugri þróun. Ég vil leggja mitt af mörkum við að halda áfram því góða starfi sem okkar fólk hefur lagt línurnar að og vinna að þeim fjölmörgu verkefnum sem samfélagið okkar kallar á. Uppbygging eftir Covid, fjölgun- og breyting starfa, náttúruvernd, félagslegt réttlæti og loftslagsváin eru með stærstu verkefnunum framundan þar sem þarf að tryggja að öll getum við tekið þátt í samfélaginu okkar. Við stöndum nú á krossgötum því þrátt fyrir erfiða og krefjandi tíma höfum við í höndunum einstakt tækifæri til að núllstilla okkur og halda áfram veginn með grænni lausnum og sjálfbærari hætti og er nýsköpun mikilvæg sem aldrei fyrr. Ekkert okkar á að verða eftir þegar kemur að þeim aðgerðum og hér þarf að stuðla enn betur að félagslegri hagsæld samhliða þeirri efnahagslegu.

Instagram: www.instagram.com/elvahhjartardottir

Facebook: www.facebook.com/elvahronnhjartardottir

Greinar eftir Elvu:

https://www.visir.is/g/20212082166d


Um líffræðilegan fjölbreytileika – spjall við RSÍ Ung https://open.spotify.com/episode/0tOQrFrqpk0klWUJ4VsmbM?si=B71IGMgtR_Km6ysuoGAF-A

Aðrir frambjóðendur