Katrín Jakobsdóttir

Forsætisráðherra, 1. sæti

Ég heiti Katrín Jakobsdóttir og býð mig fram til að leiða lista Vinstri-grænna í öðruhvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Ég er gift Gunnari Sigvaldasyni, doktorsnema í stjórnmálafræði og saman eigum við þrjá drengi; Jakob, Illuga og Ármann Áka. Áður en ég varð þingmaður árið 2007 starfaði ég meðal annars við íslenskukennslu, fjölmiðla og bókaútgáfu.

Við Vinstri-græn höfum leitt ríkisstjórn þriggja ólíkra flokka frá árinu 2017. Málefnalegur árangur Vinstri-grænna á þessu kjörtímabili hefur verið mikill.  Þrepaskipt skattkerfi, lengra fæðingarorlof, fullfjármögnuð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, ný lög um kynrænt sjálfræði og þungunarrof, fjölmargar friðlýsingar, aðgerðaáætlun um viðbrögð við tæknibreytingum, aukinn stuðningur við félagslegt húsnæði og opinbera heilbrigðiskerfið, ný upplýsingalög og aukið gagnsæi, svo fátt eitt sé nefnt.

Það hafa verið forréttindi að vinna með frábærum félögum í hreyfingunni um land allt undanfarin ár, sem og þingmönnum og ráðherrum Vinstri-grænna.  Heimsfaraldur setti strik í reikninginn á miðju kjörtímabili en viðbrögð okkar við honum hafa snúist um að vernda líf og heilsu fólksins í landinu og styðja við afkomu almennings og atvinnulífs. Þar hefur skipt máli að sýna kjark og hafa úthald. Og ég veit að hreyfingin hefur þor til að halda áfram að vinna að góðum verkum.

Framundan blasa við stór verkefni í kjölfar heimsfaraldurs. Sú uppbygging þarf að vera græn og sjálfbær og byggjast á fjölbreytni. Við þurfum að skapa fleiri störf og á sama tíma draga úr losun á gróðurhúsalofttegunda. Jöfnuður og réttlæti þurfa að vera leiðarljós okkar í þessari uppbyggingu og tryggja að Ísland verði samfélag fyrir okkur öll.

Ég vil gera gagn fyrir Ísland. Ég vil leggja mitt af mörkum í þeim stóru verkefnum sem eru framundan. Áfram Ísland og áfram Vinstri-græn.

Instagram : katrinjakobsd

Facebook: VGKatrinJakobsdottir

Aðrir frambjóðendur