Steinunn Þóra Árnadóttir

Alþingismaður, 2. sæti.

Ég er fædd árið 1977 í Neskaupstað, dóttir Árna Sveinbjörnssonar trillusjómanns og Láru Jónu Þorsteinsdóttur sérkennara. Eiginmaður minn er Stefán Pálsson sagnfræðingur og saman eigum við tvo syni. Ég lauk námi í mannfræði og síðar fötlunarfræðum við Háskóla Íslands. 

Það voru einkum friðarmál og kjara- og réttindabarátta sem drógu mig út í pólitískt starf. 

Ég hef verið virk innan Samtaka hernaðarandstæðinga frá unglingsárum. Ekkert er eins skaðlegt lífi og umhverfi og hernaður sem eyðileggur samfélög, mengar náttúruna, sóar gríðarlegum fjárhæðum og hefur yfirleitt þann tilgang að viðhalda núverandi kerfi ójöfnuðar og kúgunar í veröldinni. Ísland á að vera í forystu þeirra ríkja sem tala fyrir friði og afvopnun á alþjóðavettvangi.

Ég hef setið í stjórn Öryrkjabandalagsins, en innan þeirra hagsmunasamtaka má finna margt af fátækasta fólkinu á Íslandi. Ég legg áherslu á að skapa samfélag þar sem við öll erum þátttakendur. Til þess þarf framfærslu sem tryggir að hægt sé að lifa sómasamlegu lifi og öflug stuðningskerfi, þar með talið samfélagslega rekið mennta- og heilbrigðiskerf. 

Ég tók sæti á Alþingi sem aðalmaður árið 2014 og hef alla tíð tekið að mér þau verkefni sem hreyfingin hefur falið mér og lagt áherslu á að nálgast þau út frá grunnstefnumálum okkar: jöfnuði, umhverfisvernd, kvenfrelsi og friðarstefnu.

Það eru kerfjandi tímar framundan við að byggja upp atvinnulíf og efnahag þjóðar. Sú uppbygging þarf að vera loftlagsvæn og tryggja félagslegt réttlæti. Það er því skýr þörf á okkar Vinstri grænu áherslum. Ég býð fram krafta mína í að vinna að því verki.

https://www.facebook.com/SteinunnVG

https://www.instagram.com/steinunnthora/

Aðrir frambjóðendur